Starfssvið

Áreiðanleikakannanir

Starfsmenn ADVEL hafa víðtæka reynslu af gerð lögfræðilegra áreiðanleikakannana. Hafa slík verkefni m.a. verið unnin sem hluti af skráningarferli félaga á markað, í tengslum við samruna, kaup og sölu félaga.

Lögfræðileg áreiðanleikakönnun er ítarleg rannsókn á starfsemi félags og lagalegri stöðu þess. Tilgangur slíkrar könnunar er einkum að draga upp á yfirborðið brotalamir sem kunna að finnast í rekstri félags og upplýsa hagsmunaaðila um lagalega stöðu þess. Lögfræðileg áreiðanleikakönnun er iðulega gerð fyrir hagsmunaaðila í tengslum við skráningu félags á markað, í tengslum við samruna, við fjárhagslega endurskipulagningu og við kaup og sölu félaga.

Lögfræðilegri áreiðanleikakönnun er ætlað að ganga úr skugga um að ekkert óvænt komi upp eftir að viðskipti hafa átt sér stað, veita hagsmunaaðilum tækifæri til að taka vel upplýsta ákvörðun og draga úr áhættu þeirra. Ítarleg rannsókn óháðra sérfræðinga á starfsemi félags gefur heildstæða mynd og eykur traust og jafnræði aðila í viðskiptum.

Umfang áreiðanleikakönnunar er misjafnt eftir óskum verkkaupa. Iðulega er um heildstæða rannsókn að ræða á öllum þáttum starfsemi viðkomandi félags. Í öðrum tilvikum er um afmarkað viðfangsefni að ræða. Í verksamningi milli aðila og niðurstöðuskýrslu er umfang áreiðanleikakönnunar nákvæmlega skilgreint.

Aðild ADVEL að Globalaw hefur nýst mjög vel á þessu sviði er starfsemi félags er í fleiri en einu landi. Samtökin gera ADVEL kleift að setja saman teymi á skömmum tíma í ólíkum löndum til að ljúka verkefninu.

Helstu tengiliðir