Starfssvið

Vátryggingaréttur

Hjá ADVEL starfa sérfræðingar á sviði vátryggingaréttar sem hafa ekki einungis haft umsjá með heimtu vátryggingabóta úr hvers kyns vátryggingum heldur jafnframt annast ráðgjöf til fyrirtækja í tengslum við val vátrygginga, gerð vátryggingasamninga við tryggingafélög og hagsmunagæslu og málarekstur gagnvart tryggingafélögum, úrskurðarnefndum og dómstólum.

Á síðastliðnum árum hefur það færst í vöxt að innlend félög kaupa sér flóknari og umfangsmeiri vátryggingarvernd en áður þekktist, jafnvel beint frá erlendum vátryggjendum. Hefur þetta kallað á sérhæfða ráðgjöf til viðskiptavina ADVEL um hið margþátta viðskiptasamband og oft á tíðum ógagnsæju skilmála sem gilda milli vátryggjanda og hins vátryggða sem t.a.m. í svokölluðum stjórnenda-ábyrgðartryggingum, þykja oft óljósir. Hlutverk vátryggingamiðlara getur þar einnig komið til skoðunar. Aðkoma ADVEL á þessu sviði snýr hvort tveggja að ráðgjöf þegar kemur að vali og gerð vátryggingasamninga við tryggingafélög sem og seinni tíma hagsmunagæslu og málareksturs gagnvart tryggingafélögum og frammi fyrir úrskurðarnefndum og dómstólum þegar á bjátar.

ADVEL veitir ekki eingöngu innlendum félögum ráðgjöf heldur hafa lögmenn stofunnar um árabil veitt erlendum vátryggjendum og endurtryggjendum, bæði á Lundúnar markaði og víðar í Evrópu, umfangsmikla ráðgjöf er varðar hagsmunagæslu hér á landi og samningagerð. Ráðgjöf ADVEL snýr þannig bæði að frumtryggingum, en auk þess er stofan ein fárra sem veitir ráðgjöf á sviði endurtrygginga.

Þekking sú sem sérfræðingar ADVEL búa yfir byggir á víðtækri og áralangri reynslu af samskiptum við margvísleg innlend félög sem staðið hafa í ágreiningi við vátryggjendur, en ekki síður ráðgjöf sem veitt hefur verið stærri alþjóðlegum vátryggjendum og endurtryggjendum sem gæta þurfa hagsmuna sinna á Íslandi, hvort heldur er gagnvart innlendum vátryggjendum eða gagnvart vátryggðum félögum og einstaklingum.

Mikil reynsla og þekking á innviðum þessa sérhæfða réttarsviðs skiptir sköpum þegar bregðast þarf við með skjótum og markvissum hætti, og huga þarf að heildarhagsmunum aðila. Lögmenn ADVEL búa yfir þeirri reynslu og færni sem nauðsynleg er.

Helstu tengiliðir